1 / 16

S tafsetning

S tafsetning. 1.

coralie
Download Presentation

S tafsetning

An Image/Link below is provided (as is) to download presentation Download Policy: Content on the Website is provided to you AS IS for your information and personal use and may not be sold / licensed / shared on other websites without getting consent from its author. Content is provided to you AS IS for your information and personal use only. Download presentation by click this link. While downloading, if for some reason you are not able to download a presentation, the publisher may have deleted the file from their server. During download, if you can't get a presentation, the file might be deleted by the publisher.

E N D

Presentation Transcript


  1. Stafsetning 1. Lágvaxnir Frakkarnir stóðu umkomulausir og skelfingu lostnir við veginn. Þeir höfðu greinilega misst stjórn á bifreiðinni við áreksturinn. Lögreglan hafði hraðann á og aðstoðaði eftir föngum. Við nánari skoðun kom í ljós að afleiðingarnar voru ekki eins alvarlegar og í fyrstu leit út fyrir. Einn sneri á sér ökklann, annar var með brákaðan úlnlið og bólgið hné en enginn hlaut varanleg líkamsmeiðsl. Að aflokinni ævintýralegri Íslandsdvöl héldu þessir gömlu menntaskólabræður úr nyrstu héruðum Frakklands heim á leið. Í minningunni átti ferðin eftir að verða þeim dýrmæt. Kannski vegna þess að þeir höfðu sloppið með skrekkinn. (95 orð) Námsgagnastofnun 2002 - Málbjörg / SKS

  2. Stafsetning 2. Um miðjan september sá Geiri Lísu fyrst bregða fyrir í anddyri skólans. Hann hafði ekkert fylgst með skólasystkinum sínum þetta haust. Hafði verið frekar upptekinn af sjálfum sér og eigin hugðarefnum. En þessi stúlka hreyfði við honum. Frá henni streymdu einhverjir hlýir straumar. Hann reyndi árangurslaust að kynnast henni. Eftir því sem lengra leið á haustið varð honum þó ljóst að hún sýndi ekki hinn minnsta áhuga. Á hverjum morgni sat hann stúrinn við matarborðið og horfði hryggum augum yfir salinn, þangað sem stelpurnar sátu. Hann sannfærðist loks um það að þau tvö byndust aldrei nánum böndum. (97 orð) Námsgagnastofnun 2002 - Málbjörg / SKS

  3. Stafsetning 3. Margir hjólreiðamennirnir sýna ótrúlega seiglu og hugrekki þegar þeir silast yfir fjöll og firnindi landsins. Vonbrigði Norðmannanna þriggja sem höfðu stigið á land við höfnina á Seyðisfirði um Jónsmessuleytið leyndu sér ekki. Þeir hugðust hjóla yfir til Norðurlands með viðkomu við Mývatn. Til að byrja með höfðu skipst á skin og skúrir en síðastliðna daga hafði regnið hellst úr lofti. Í rennandi bleytu streðuðu þeir áfram á Möðrudalsöræfum allan daginn. Framundan var verslunarmannahelgin og búast mátti við mikilli umferð austanlands. Þeir voru í stöðugri lífshættu þegar tryllitækin spændu upp vegkantinn og jusu yfir þá forarbleytunni. (95 orð) Námsgagnastofnun 2002 - Málbjörg / SKS

  4. Stafsetning 4. Kristinn sat hugsi fyrir framan tölvuskjáinn. Tölvan var fermingargjöf frá systkinum Kristins, áhugi hans á henni var þó lítill sem enginn. Aldrei þessu vant hafði hann dregið fram á síðustu stundu að leysa viðfangsefni skólans. Nýi kennarinn sýndi mikla ósanngirni og útilokað virtist að sannfæra hann um að þátttaka í íþróttum skipti meira máli en einfalt ritunarverkefni. Úrslitaleikurinn var á næsta leiti og mikið lá við að missa ekki af æfingu. Líklega væri best að hann hringdi til Egils og fengi ráðleggingar. Egill var býsna duglegur að leysa svona vandamál. Hann yrði að komast á völlinn, svo mikið var víst. (100 orð) Námsgagnastofnun 2002 - Málbjörg / SKS

  5. Stafsetning 5. Þegar ofar dró blasti við útsýni yfir þröngan dalinn. Í fjarska mátti greina tignarlega fjallstinda snævi þakta og yfir þeim grisjótta skýjaslæðu sem breiddist yfir himininn. Lygnt var í veðri og vorilmur í lofti. Sóleyjarnar og fíflarnir skrýddu tún og engi. Hlynur hreifst alltaf af þessum blómum. Þegar hann var yngri tíndi hann þau í vendi handa mömmu sinni sem setti þau í máðan blómavasann á borðstofuborðinu. Sólin var komin upp yfir hvítfextan tindinn og birtan frá henni hálfblindaði bílstjórann. Hann mátti hafa sig allan við að missa kaggann ekki ofan í hyldjúpt gilið. (94 orð) Námsgagnastofnun 2002 - Málbjörg / SKS

  6. Stafsetning 6. Vegurinn var sundurslitinn á löngum kafla. Á skiltinu stóð að þau þyrftu að taka á sig fjörutíu kílómetra krók vegna vegaframkvæmdanna. Bifreiðin þokaðist áfram yfir holóttan malarveginn sem rollurnar leituðu stöðugt inn á. Þótt Björn drægi úr hraðanum tókst honum ekki að koma í veg fyrir óhappið. Hann hemlaði skyndilega svo við lá að bíllinn snerist og rynni aftur á bak niður hlíðina. Með miklu harðfylgi tókst Birni að sveigja framhjá dýrinu. Þegar hann náði aftur stjórn á bílnum hugsaði hann Vegagerðinni þegjandi þörfina. Á leið niður brekkuna heyrðu þau jarmið í gimbrinni sem hafði sloppið heil á húfi. (99 orð) Námsgagnastofnun 2002 - Málbjörg / SKS

  7. Stafsetning 7. Jökulsdalsheiðin er á Austurlandi. Þangað sótti Halldór Laxness efnivið í eitt af þekktari bókmenntaverkum sínum, Sjálfstætt fólk. Við ókum þessa heiði síðastliðið sumar á ferð okkar um Austfirðina. Gömlu heiðarbýlin blöstu við frá veginum. Sandarnir teygðu sig í átt til Herðubreiðar og jökulfljótin hlykkjuðust eins og glitrandi silfurfestar út við sjóndeildarhringinn. Ótrúleg þótti okkur sú staðreynd að fólk skyldi hafa búið þarna í heiðinni fyrir nokkrum áratugum án nútíma þæginda eins og rafmagns og rennandi vatns. En maðurinn getur í reynd aðlagast alls konar aðstæðum, hann hefur geysilega hæfileika á því sviði. (92 orð) Námsgagnastofnun 2002 - Málbjörg / SKS

  8. Stafsetning 8. Um miðjan júní höfðu nokkrir heimsþekktir einstaklingar slegið upp tjöldum neðan við ána. Þeir hugðust dveljast þarna fram að næstu mánaðamótum við laxveiðar. Sagnir af mikilli laxagengd höfðu greinilega borist út fyrir landsteinana. Meðal annarra mátti greina heimsþekktan söngvara. Mennirnir höfðu fikrað sig út í hvítfyssandi ána í nýkeyptum rosabullum og voru að myndast við að kasta. Erfitt var að fóta sig á malarbotninum fyrir nýliðana en ánægjan skein af hverju andliti. Þegar líða tók á daginn höfðu þeir landað nokkrum skínandi fallegum löxum sem lágu þarna við sléttan grasbalann. (91 orð) Námsgagnastofnun 2002 - Málbjörg / SKS

  9. Stafsetning 9. Nýlega komst Þórarinn í hann krappann. Mikill hálkubunki hafði myndast á veginum frá Vopnafirði svo við lá að hann missti þungan jeppann niður brattan hallann. Hann hafði gleymt sér eitt augnablik við leit að útvarpsstöð og ekki var að spyrja að afleiðingunum: Bíllinn hefði henst út af veginum ef ekki hefði verið fyrir snarræði Þórarins sem greip þétt um stýrið og sveigði aftur inn á veginn. Hann greip andann á lofti og var handviss um að síðasta stund sín rynni brátt upp ef ekki yrði tekið í taumana. Þegar bílinn stöðvaðist sótti sú hugsun á Þórarin að aldrei aftur skyldi hann storka máttarvöldunum svo freklega. (106 orð) Námsgagnastofnun 2002 - Málbjörg / SKS

  10. Stafsetning 10. Við bústaðinn mátti greina lágvaxinn kvenmann með höfuðfat skrönglast út úr bifreið. Greinilegt var að hún hafði stirðnað við aksturinn. Næsti sólarhringurinn yrði henni áreiðanlega býsna erfiður. Í dyrunum stóð fjölskylda konunnar og fagnaði ákaflega. Síðan hvarf allt þetta fólk inn í bæinn og dyrnar luktust á eftir því. Ég leit í kringum mig. Engan mann var að sjá neins staðar. Ég hugaði að byssunni. Öryggið var spennt og lífið virtist leika við mig. Í fjarska voru gæsirnar enn á sínum stað á grasi vaxinni grundinni. Ég skreið af stað um þurran skurðbotninn og var kominn með vatn í þurran munninn af tilhugsuninni um ilmandi gæsasteik. (106 orð) Námsgagnastofnun 2002 - Málbjörg / SKS

  11. Stafsetning 11. Þau óku sem leið lá yfir Möðrudalsöræfin, um Víðidal yfir í Reykjahlíð. Þar höfðu þau viðdvöl á veitingastað innan um ferðamenn af ýmsu þjóðerni. Um fimmleytið renndu þau yfir í Norður-Þingeyjarsýslu og gistu þar yfir nóttina. Snemma næsta morgun héldu þau áleiðis til Akureyrar. Fjölbreytni íslenskrar náttúru var ólýsanleg. Klettar fjallanna tóku á sig ýmiss konar tröllslegar myndir. Hraunið, fagurlega skreytt mosa, skartaði litum í endalausum tilbrigðum og bergvatnsár runnu niðandi um mýrar og móa. Ríkt fuglalífið gaf þeim innsýn í annan heim þar sem flugur suðuðu við tært yfirborð en silungur undir beið þess að gleypa þær lifandi. (99 orð) Námsgagnastofnun 2002 - Málbjörg / SKS

  12. Stafsetning 12. Síldarævintýrið síðasta stóð yfir á sjötta og sjöunda áratugnum fyrir norðan og austan. Fyrstu árin var Siglufjörður helsti söltunarbærinn. Seinna fluttist vinnslan austur um land og Seyðisfjörður tók við forystuhlutverkinu. Reynir minntist þeirra daga er hann var miklu yngri og bátarnir fylltu fjörðinn. Þá lágu þeir hver utan á öðrum svo langt sem augað eygði frá bryggjunni. Á ytri höfninni lágu norsku skipin. Það var siður Norðmannanna að salta um borð. Þeir hífðu tunnurnar í stafla aftan við stýrishúsið. Mávarnir flögruðu við sjávarflötinn í leit að æti. Þessi árin var unnið sleitulaust næstum allan sólarhringinn og bræðslan spúði reyknum í sífellu. (99 orð) Námsgagnastofnun 2002 - Málbjörg / SKS

  13. Stafsetning 13. Við vorum nýkomin í bústaðinn, höfðum keyrt sem leið lá inn dalinn, upp gamlan og slitinn veginn. Þegar við renndum upp að smáhýsinu sáum við sex glóandi kolamola stara á okkur innan úr þyrrkingslegu kjarrinu. Konan mín steig út og ætlaði að taka mynd en styggð kom að rollunum og þær sveigðu til baka inn í lágvaxinn skóginn. Algert skaðræði var að hafa þessar kindur þarna tyggjandi lyngið og nagandi smáhríslur. En við treystum okkur ekki í fjárleit í myrkrinu síðla kvölds. Næsta morgun fórum við hins vegar snemma á stúfana en fundum hvorki af þeim tangur né tetur. (99 orð) Námsgagnastofnun 2002 - Málbjörg / SKS

  14. Stafsetning 14. Konan var gripin skelfingu þegar eiginmaður hennar steig bensíngjöfina í botn. Hann lét sig engu skipta áberandi viðvörunarskilti um einbreiðar brýr og blindhæðir. Konan sárbændi mann sinn um að hægja nú ferðina og veita athygli hinum margbrotnu hættumerkjum. Þrátt fyrir að bíllinn þyti framhjá þeim með óleyfilegum hraða virtist engu tauti við manninn komandi. Með samanbitnar varir sat hann og hélt dauðahaldi um stýrið sem snerist geipilega í höndum hans. Framundan var heiðarbrúnin og bjóst konan satt að segja við því að á næsta augnabliki flygju þau upp í heiðan himininn líkt og konurnar í myndinni forðum. (97 orð) Námsgagnastofnun 2002 - Málbjörg / SKS

  15. Stafsetning 15. Keppnin hófst með miklum bægslagangi. Þátttakendurnir fjörutíu voru kappsamir og það hvein í prjónunum. Sæunni lá við örvilnun enda var hún illa fyrir kölluð, axlirnar bólgnar, sigg í lófunum og skeinur á fingrunum. Aldrei á ævinni hafði henni liðið jafn illa. Hún hvikaði þó ekki frá settu marki og sneri sér tvíefld að viðfangsefninu. Feitlaginn kvenmaður flissaði þegar voveiflegt hljóð heyrðist frá einum piltinum, hann hafði fipast og stungið prjóni í sleikifingur vinstri handar. Kunnátta hans var víst frekar bágborin. Þyrrkingslegur umsjónarmaður sendi eymdarlegri konunni illt augnaráð. Við lá að Sæunn fyndi til vorkunnar með henni. (96 orð) Námsgagnastofnun 2002 - Málbjörg / SKS

  16. Stafsetning 16. Mörgum fyndist eflaust erfitt að segja sannleikann en þú hlægir ekki ef þú sæir hvernig nýi bíllinn þinn lítur út. Mér líst ekki á blikuna því mig minnir að þú hafir ekki endurnýjað tryggingarnar. Mörgum þykir það áreiðanlega hneyksli að sýna þvílíkt kæruleysi. Ég byndi ekki miklar vonir við greiðvikni náungans í þínu tilfelli. Þú tækir því áreiðanlega ekki illa þótt ég byðist til að greiða götu þína. Birgir vildi gjarnan komast heim áður en hvítasunnuhelginni lyki til þess að lenda ekki í öngþveiti. Hann hafði engin áform um heimferð þrátt fyrir að hann sviki með því heit sín við svila sinn og myndi iðrast þess alla ævi. (108 orð) Námsgagnastofnun 2002 - Málbjörg / SKS

More Related